mánudagur, 30. nóvember 2015

Du låter som en finlandssvensk

Það er allt á uppleið hér í Uppsala síðan ég skrifaði síðustu færslu ! 
"Du låter som en finlandssvensk" er jú allan daginn miklu betra heldur en "Är du dansk?"
Næst þegar ég nenni að setjast niður og skrifa færslu hér verður það til að segja ykkur ég tali sænsku eins og innfædd og enginn heyri muninn ;) 


Fékk þetta bréf einmitt með póstinum í dag sem staðfestir þessi, mögulega alltof háleitu, plön mín :D
Byrja á sænsku námskeiði, tvö kvöld í viku, frá og með næsta mánudegi ! 
Fer beint í kurs D i svenska för invandrare, sem er fyrir þá sem ekki þekkja til SFI loka kúrsinn þeirra ... (enda myndi ég ná prófinu "þykist geta talað sænsku" með hæstu einkunn) ...
fannst ég hafa alltof lítið að gera nefnilega, svona 2 vikum fyrir lokapróf og 20 dögum fyrir heimferð 



Annars kom fyrsti snjórinn óvænt í Uppsala í nótt ! <3 Það beið mín mynd á snapchat af elsku Lóu minni að skoða snjóinn í fyrsta skipti þegar ég vaknaði og ég veit þið getið ekki trúað því hvað ég var fljót framúr og út í glugga til að staðfesta það væri í raun og veru hvít jörð !!!

Er farin að ganga í fyrsta skipti síðan ég var barn með húfu, vettlinga og trefil ! Toppið það ! 
Verst að ég hef aldrei notað trefil á ævinni, svo nú ligg ég yfir "how to tie a scarf" á youtube til að reyna læra það ... nú hrista einhverjir hausinn og halda ég sé að grínast, en nei, þetta er það sem skeður þegar manneskja með tískuvitund á við flóðhest notar ekki google og youtube:


Svona neyddist manneskjan sem fór beint í ræktina úr skólanum, handklæðislaus, án þess að hugsa í hverju hún væri og í hvað hún væri að fara til að labba heim. 
... kvartbuxur og háhælaðir kuldaskór ... rosa smart ... 

Stundum langar mig að gráta þegar ég hugsa um hvernig ég klæði mig svona dagsdaglega, en svo man ég að ég er sameindalíffræðingur með lestur og tölvuleiki sem mín aðal áhugamál svo að fólk er ekkert að búast við miklu til að byrja með ... ;)


Enda er lífið líka svo miklu betra þegar maður er giftur náttfötunum sínum, kann ekki að meika sig, tekur upp pósurnar eftir litlu systur sinni og veit það er allavega mánuður síðan það var komið deadline á klippingur og litun :D 

Annars þangað til næst (og ef það verður ekkert næst þá vitið þið að ég týndist í minni fyrstu lestarferð innan Stokkhólms ein á morgun!) ... hejdå ;* 

fimmtudagur, 12. nóvember 2015

Är du dansk?

Kem til með að flytja minn fyrsta fyrirlestur á ensku fyrir framan bekkjarfélaga og kennara á morgun, gengur svona misvel að koma því niður á blað hvað ég ætla að segja og klára að undirbúa glærurnar mínar. Fengum sem betur fer daginn í dag í "frí" til þess að undirbúa kynningarnar okkar. Ég fullnýtti daginn að sjálfsögðu. Svaf út. Fór í bankann. Tók kaffihúsadeit við Guðný. Fannst ég ómögulega geta lært heima hjá mér og ákvað því að leikteppið hennar Lóu væri betri staður til að koma mér í gang. Lék við Lóu, lærði minna. Er nú heima og ákvað að það væri löngu orðið tímabært að henda í blogg.


En ég er allavega búin að koma mér fyrir og finnst ég hljóti að vera standa mig vel í lærdómnum fyrst íbúðin er í rúst - helst það ekki alltaf í hendur? Er líka orðið óglatt af lakkrís áti, getur bara þýtt ég sé að standa mig dúndur vel í lærdómnum.

Annars er allt ágætt að frétta frá Uppsala, tíminn hleypur frá mér og ég hef suma daga svo mikið að gera að ég eiginlega kem engu í verk ég er svo upptekin að reyna skipuleggja hvernig ég ætli að hafa tíma í allt sem ég þarf að gera. Ekki nema rúmur mánuður í lokapróf í lotunni sem nú var að hefjast, eftir það hef ég 2 daga til að pakka lífinu mínu hér í Svíþjóð niður í kassa og flytja. 
Er búin að kynnast yndislegum mæðginum hér í Uppsala, þeim Kötlu og Flóka, sem ég ætla að leigja hjá herbergi eftir áramót. Er ekki frá því það verði notalegt að fá smá félagsskap, ég kann ekki að búa svona ein, enda eyði ég líklega meiri tíma á sófanum hjá Guðný vinkonu en í mínum eigin sófa.


En ég er ekki alltaf ein! Sólskinsbarnið hún Helga María kom í pössun til mín í tvo daga í síðustu viku og eyddi ég svo síðdegi með þeim mæðgum þann þriðja. Ég bý nefnilega svo vel að eiga heima í sama húsi og hún er í leikskóla, ekki slæmt þegar pabbi er á Íslandi og kemst ekki að ná í mann! Henni fannst sko ekkert leiðinlegt að Nína "frænka" kæmi að ná í sig í leikskólann í staðinn og áttum við ótrúlega góðar stundir saman yfir Pokémon og ostabrauði <3 

Annars komst ég að því á barnum í gærkvöldi (því bekkurinn minn ákvað að halda upp á próflokin okkar 10 dögum seinna á miðvikudegi eins og eðlilegt fólk gerir) að spurning "Är du dansk?" fer rosalega öftugt ofan í mig. Svelgdist alveg á bjórnum mínum og var ekki lengi að svara "Nej! Jag är isländsk!" ... af hverju ég var að segja Gleðileg jól er allt önnur saga, en að viðurkenna að gleðileg jól sé alveg eins á íslensku og dönsku var ég ekki til í ! 

Þar til í næsta stríði ... Hejdå ! 

sunnudagur, 18. október 2015

Svefnleysi, brotinn sími og prófstress

Ég er alltaf að bíða eftir að eitthvað ótrúlega merkilegt eigi sér stað, helst myndvænt og líka töff - svo ég geti bloggað um það. En svo gengur lífið bara sinn vanagang og ég veit ekki hvert tíminn er að fljúga frá mér ! Fyrsta stóra lokaprófið mitt í mastersnáminu eftir 11 daga, mig langar pínu að deyja ég er svo stressuð. Allavega gubba. En er svona að reyna að anda rólega og einbeita mér að því að læra, býst ekki við að gera mikið annað heldur en að sofa og læra næstu 11 dagana.


Hér í Uppsala er komið haust, ég tók þessa mynd þegar ég hjólaði heim úr bænum eftir fiku með Guðný og Axel í gær. Þótt að hitastigið sé komið niður að frostmarki hér í Svíþjóð þá er ótrúlega stillt og fallegt veður sem hefur fylgt fyrsta vetrarkuldanum.
Ekki það að mér líður eins og það séu -10 þegar hitamælirinn hér sínir -1, svo ég veit ekki hvernig ég á eftir að lifa það af þegar frostið kemur í vetur.


Þótt að mér líði ótrúlega vel hérna í Svíþjóð þá er miserfitt að komast í gegnum daginn. Hef svolítið fundið fyrir því síðustu vikurnar sérstaklega hvað það er meira en að segja það að venjast því að vera ein og venjast því að vera í nýju landi. Veit í alvörunni ekki hvar ég væri stödd ef ég ætti ekki elsku Guðný og Axel að þessa dagana. En þegar manni finnst heimurinn ljótur og vill helst ekki vera til, þá sækir maður í það sem er öruggt og alltaf til staðar fyrir mann <3 Harry Potter. Fór og eyddi aleigunni í nýju myndskreyttu útgáfuna sem kom út í síðustu viku. Hún er yndisleg. 

Annars er mest lítið að frétta, það kom að því sem fólkið í kringum mig hefur beðið eftir þegar síminn minn datt einu sinni of oft í gólfið og brotnaði. Því fylgir ekki mynd þar sem ég á bara myndavélina í símanum. Hann virkar samt alveg - no worries, bara sprungur í skjánum. 
En klaufabárðurinn verður bara lifa með því og reyna fara betur með elsku besta símann því nú er ekkert víst hann þoli mikið fleiri högg ! 

Stefni á að henda inn eins og einu prófbugunar bloggi með myndum af glósum og prófljótu til að þið heima á klakanum vitið ég sé enn á lífi meðan klukkan tifar allt of hratt og prófdagur nálgast. En þar til næst ... hejdå 

föstudagur, 25. september 2015

Stúlkan á bláa hjólinu

Í gær skeði það í fyrsta sinn að mín mest notaða setning "Pråtar du engelska? Min svenska är inte så bra" brást mér þegar henni var svarað í fyrsta sinn ekki með "Yes I do" heldur "Nej, jag talar inte engelska, men du talar ju svenska".
Ég sver það að hjartað tók auka slag og í andartak fraus ég og var næstum búin að missa út úr mér á minni allra bestu íslensku "Hvernig á ég þá að versla við þig!?" og labba aftur heim og segja þessum leiðangri mínum lokið. Leiðangri sem fólst í því að draga alveg loftlausa hjólið mitt á eftir mér niður í miðbæ í leit að hjólabúð til að aðstoða mig við að koma því í stand fyrir Uppsala.
En það að gefast upp án þess að reyna er bara ekki í boði þegar maður er að reyna fóta sig ein í nýju landi ! Svo haldið þið ekki að yours truly hafi náð að gera sig skiljanlega um að hjólið mitt væri fyrir utan hjólabúðina, það væri loftlaust og ég þyrfti að láta pumpa í það auk þess sem að mig vantaði á það körfu, bjöllu, ljós og sterkari lás. Ég lýg því samt ekki að mitt fyrsta verk eftir að ég kom út úr hjólabúðinni var að senda mömmu skilaboð um að ég hefði skilið hjólið mitt eftir hjá eldri manni sem talaði ekki ensku og ég héldi að ég ætti að sækja það eftir 30 mínútur og ég héldi ég hefði beðið um fyrr greinda hluti. 


En 45 mínútum og 460 krónum síðar fékk ég þessa elsku í hendurnar <3 fallegi fákur sko ! 
Svo nú, eftir rúman mánuð af strætó og gönguferðum er ég loksins búin að koma elsku hjólinu á götuna. Ég hefði ekki trúað því hversu mikill munur það er að geta hjólað á milli staða, en allt hefur sína kosti og galla og ég hef nú sætt mig við það hlutskipti í lífinu að vera alltaf sveitt og ógeðsleg (ég bý efst í mögulega einu brekkunni hér í Uppsala). 
Hér hjóla allir, bókstaflega allir, ég yrði ekki hissa þótt að hér væru fleiri hjól á götunum heldur en bílar. Sem dregur mig að næsta atriði. Á götunni. Hér hjólar fólk á götunni. Hjálmlaus, öll sem eitt. 
Ef þið heyrið því á næstu vikum af ungri íslenskri stúlku sem óvart hjólaði á bíl, eða manneskju, eða inn í andahóp. Þá vitið þið um hverja ræðir.
En ég hjólaði í fyrsta sinn leið áðan þar sem ekki voru þar til gerðir hjólastígar og komst í þetta skiptið lifandi heim úr búðinni. Þrátt fyrir að hafa ekki bara hjólað á götunni, heldur gefið merki um í hvaða átt ég ætlaði að beygja á gatnamótum og farið 1/4 af hringtorgi á hjólinu ! 
Með innkaupin fyrir helgina í körfunni ásamt veskinu. Mjög stórborgaraleg. Eins og mér finnst ég vera í svo mörgu sem ég tek mér fyrir hendur hér í stóra Sverige :)

En þar til næst
Hejdå


þriðjudagur, 22. september 2015

Dagur í lífi regnhlífar

Lífið gengur sinn vanagang hér í Uppsala, kominn mánuður síðan ég flutti og ég er ekki frá því að lífið sé að verða komið í einhverskonar rútínu.

Í dag var rigning og notaði ég tækifærið til að prufukeyra nýju regnhlífina mína, ég veit ekki hvað það er en ég er komin með einhverja undarlega þráhyggju fyrir regnhlífum síðan ég áttaði mig á því (og bloggaði um) að það væru allir með þannig að hér væru þær algjörlega málið.


Svona var útsýnið undan reghnlífinni minni þegar ég gekk heim í kvöld ! Ég vildi að þið hefðuð getað séð hvað ég var fín og stórborgaraleg á leið heim úr búðinni með svarta regnhlíf og fjölnota innkaupa poka í stíl - en þar sem ég hafði engan til að taka mynd af mér þá verðið þið að láta ykkur þessa furðulegu mynd af malarstígnum hjá sjúkrahúsinu duga ;)


Litlu hlutirnir í lífinu sko ! Ég hef verið að eyða miklum tíma með Guðný og Axel síðan ég flutti út, veit bókstaflega ekki hvar ég væri án þeirra <3 og gærdagurinn var engin undantekning.
Kíkti í ræktina eftir skóla með Guðný og var svo eitthvað eirðarlaus í mér um kvöldið svo ég hoppaði upp í strætó og kíkti í kvöldheimsókn. 
Tókum yatzy - og haldið þið ekki að mín hafi rústað því og fengið sexu-yatzy í fyrsta skipti í skrilljón ár ! ... ætla að lifa á þessu kasti allavega út vikuna ;) 

Annars er bara brjálað að gera í skólanum og lífið snýst voðalega mikið um það að komast í gegnum skóladaginn og að sofa. Er búin að vera endalaust þreytt og búin að sofa mikið síðan ég flutti ! 

En þar til næst - hejdå

laugardagur, 19. september 2015

Frekar mikið um ekkert

Ákvað að henda inn stuttri færslu svona á laugardegi, láta vita að ég er á lífi hér í Svíþjóð.
Veit ekki alveg hvað ég á að skrifa um samt, síðasta vikan hefur liðið í smá móki:
Ég sef, vakna, mæti í skólann, kem mér í gegnum restina af deginum og endurtek. 


Hlusta mikið á þetta lag þessa dagana, það poppaði upp á "Veckans tips" á Spotify hjá mér í vikunni sem ég flutti hingað út, meira viðeigandi en flest önnur á þessum tímapunkti í lífinu.

Flaug heim um síðustu helgi í afmælisfögnuð hjá pabba og Sigga frænda. 
Lítið sofið en mikið ferðast þá helgina ! Er enn að hlaða batteríin, bæði líkamlega og andlega, tók mun meira á heldur en ég hafði búið mig undir svo það var mjög þreytt og buguð lítil sál sem fór að sofa um kvöldmatarleitið á mánudeginum hér í Uppsala.


Ætla einblína á allar góðu stundirnar frá helginni :) ég veit ekki alveg hvar Baldur faldi sig þegar við skelltum í eina grettu selfie systurnar með mömmu og pabba á laugardagskvöldinu, kannski að haga sér eins og maður fyrir restina af okkur ;) en mér þykir allavega mjög vænt um þessa mynd <3 það sem ég er heppin með fjölskyldu :D elska þessi svo endalaust mikið !


Eins og ég sagði í upphafi hef ég gert lítið annað heldur en að sofa, mæta í tíma og liggja á sófanum hjá Guðný að leika við Lóu vinkonu mín þess á milli ... ákvað samt þegar ég vaknaði í morgun að það gengi ekki til lengdar ! Svo að þegar Guðný sendi mér skilaboð um að það hefðu losnað pláss í morguntíma í spinning þá skelltum við okkur saman þangað og er ég nú komin í náttföt heima alveg búin á því eftir daginn að reyna að vinna upp heimalærdóm fyrir næstu viku :)

Þar til næst ... hejdå 

miðvikudagur, 9. september 2015

Hvað er að frétta? Pönnukökur og miði á Skálmöld :)

Lífið er smátt og smátt að komast í rútínu hér í Uppsala, veit samt í alvöru ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki Guðný og Axel að ! Rútínan mín felur vandræðalega mikið í sér að eyða sem mestum tíma utan skóla með þeim og Lóu, litlu vinkonu minni :) en ég kvarta ekki !  Ég er bara rosa þakklát að eiga svona góða vini sem standa við bakið á mér og gera allt sem þau geta til að gera flutningana til Svíþjóðar ein þægilega og hnökralausa fyrir mig og mögulega.


Við tökum fika mjög alvarlega hér í Uppsala ! Það gladdi því hjartað mitt óendanlega þegar við fórum á kaffihús um síðustu helgi og við Guðný fundum okkur pönnukökur með sultu og rjóma ! <3
Næstum því eins og að vera komin heim bara :) 


Það gladdi hjartað mitt þó ennþá meira (ótrúlegt en satt!) þegar ég fann mér miða á Skálmöld í Stokkhólmi í byrjun desember ! :D Þangað til í síðustu viku hafði ég aldrei heyrt um hljómsveitina sem þeir eru að fara spila með, en ég hef hlustað mjög mikið á Eluveitie síðustu vikuna og er orðin gjörsamlega húkt ! 1. desember getur ekki komið nógu snemma !!! :D 


Annars er þessi mynd mjög lýsandi fyrir líf mitt þessa dagana ... læri læri læri ... ónæmisfræði BUGUN á háu stigi í gangi í augnablikinu - en vonandi kvikna nokkur ljós þegar ég næ að lesa lengra inn í bókina ;) annars veit ég ekki alveg hvað ég geri ! 
En þangað til næst ... 

Hejdå

miðvikudagur, 2. september 2015

Det regnar men det spelar ingen roll

Var búin að ákveða að fara ekki að sofa fyrr en ég væri búin að þurrka af íbúðinni ... svo ákvað auðvitað í framhaldi af því að fara ekki að þurrka af fyrr en ég væri búin að henda inn nokkrum línum hér ;) þarf sko að óhreinka tuskurnar fyrir 7:00 í fyrramálið því þá á ég þvottahúsið!


Skólinn er byrjaður ! Það fer alveg að koma að því að ég átti mig á því að ég sé í alvöruni orðin Masters nemi !!! Auðvitað var hent í lyftu selfie á leiðinni í skólann fyrsta daginn ;) 
Kaffibauna leggings og kaffi frá Kaffitár - það klikkar ekki þegar maður er stressaður ! <3 

Er svona smátt og smátt farin að kynnast krökkunum í bekknum mínum örlítið. Við erum frekar mörg, rúmlega 30, með ótrúlega mismunandi bakgrunna og frá mismunandi löndum.
Auðvitað flestir frá Svíþjóð en svo erum við frá Íslandi, Rússlandi, Þýskalandi, Spáni, Mexíkó, Kólumbíu, Slóvakíu, Frakklandi, Grikklandi, Egyptalandi og ég veit ég er að gleyma einhverjum ! Sem gerir þetta náttúrulega bara enn skemmtilegra og enn áhugaverðara nám - enda þekkja smitsjúkdómar engin landamæri ;)


 Ég fór á fætur snemma í morgun, skellti mér í Ketilbjöllu tíma klukkan 7:30 eftir andvöku nótt ...
... í grenjandi rigningu - geri aðrir betur!
Íhugaði að taka mont mynd, en ef það eru ekki lög sem banna að taka myndir af fólki eins og mér fyrir og eftir morguntíma í ræktinni, þá ættu þau allavega að vera til staðar - svo þið sleppið við það.

En rigningin ! Hér rignir fyrir allan peninginn, eins og hellt úr fötu - sænska haustið mætt á svæðið.
Þemað í Uppsala í dag var því regnhlífar - ég þarf að eignast þannig, það er alveg efst á innkaupalistanum í augnablikinu. 
Ekki það að mér hefur alltaf þótt regnhlíf svo skrítið hugtak, enda virka þær ekkert heima, en hér eru allir með þær - fólk hjólar alveg með þær. Svo ég var creepy Íslenska stelpan sem hljóp um með drukknandi iPhone og tók myndir af mismunandi fólki með regnhlífar ... 


En rigning og ketilbjöllur kallar bara á eitt ! Heitt súkkulaði eftir pappírs stúss í bænum <3 :) 

Hej då

laugardagur, 29. ágúst 2015

Áfangastaður: Gripsholm Castle

Uppsala er mikill háskólabær og hér virðast allir allt vilja gera fyrir stúdentana í bænum.
Mikið í boði þessa vikuna að skoða og gera fyrir nýnema en ég verð að viðurkenna að ég var ekki nógu dugleg að nýta mér það ... þangað til í dag!
Alþjóðaskrifstofa Uppsala háskóla bauð upp á miða í hinar ýmsu skoðunarferðir og ég stökk á miða í eina sem tók mann með rútu í Gripsholm Castle, litla miðaldra bæinn Mariefred og að skoða kirkju frá fjórtöndu öld í Härkeberga. 
Veðrið var yndislegt, leiðsögumennirnir ótrúlega skemmtileg og full af fróðleik og viðkomustaðirnir áhugaverðir. Ég fyllti símann af misgóðum myndum og ætla að troða nokkrum vel völdum hér á bloggið - vara þó við að þær eru mis menningarlegar ! ;)


Frysta stopp var Gripsholm Castle, sem má sjá þarna á bak við mig ! :) 
Í kastalanum tók á móti okkur leiðsögumaður á þeirra vegum sem að labbaði með okkur í gegnum allan kastalann og í raun var þetta líka fyrirlestur í sögu sænska kóngafólksins því þarna er andlitsmyndasafnið þeirra geymt og hver hæð tileinkuð sínu árhundraði með málverkum af kóngafólkinu og öðrum mikilvægum persónum þess tíma.


Ég tók talsvert af myndum inni á safninu, en birtan var frekar slæm og bannað að taka myndir með flassi, svo þær eru margar ekkert mjög góðar. 
Fannst þessi mynd samt heppnast frekar vel ! En hún er af drottningunni Kristinu, sem var bara 6 ára þegar pabbi hennar dó og hún varð að drottningu ! Eins og það sé ekki nóg til að leggja á lítið barn, þá þótti ríkisstjórninni móðir hennar hafa slæm áhrif á prinsessuna svo að ekkja konungsins, Maria Eleonora var send í Gripsholm kastala og bannað að hitta dóttur sína drottninguna. 
Talandi um drama í kringum 1600 ;) 
En það að ég skuli geta þulið þetta og meira upp um bara þetta málverk og málverkin í kring segir kannski eitthvað um gæði túrsins. Þetta var klukkustundalöng sögustund í fallegum kastala :)


Rúnasteinn sem stendur framan við kastalann. Minningarorð um víkinginn Ingvar sem fór fyrir leiðangri austur á bóginn. Allir leiðangursmenn voru drepnir - en 26 minningarsteinar gerðir engu að síður um mikla afrikið sem þeir unnu með að komast þangað sem þeir komust ... 
Eða eins og leiðsögumaðurinn okkar orðaði það: Svona voru víkingarnir! Það að vera heima og lifa af var bara ekki töff, að allavega reyna að fara í víking og mistakast - það var heiður!


Kóngafólkinu hefur í gegnum tíðina verið gefnar ýmsar gjafir, þar á meðal dýr og í eitt skiptið ljón. Þegar ljónið svo dó var það stoppað upp, nema hvað að maðurinn sem sá um að stoppa upp ljónið hefur líklegast aldrei séð ljón nema á skjaldamerkjum. Svo ljónið hefur risastór gleraugu og enn stærri tungu og tennur úr við x) 


Eftir túrinn um Gripsholm voru 2 klst af frjálsum tíma í Mariefred, litlum bæ sem stendur hjá kastalanum við vatnið. Myndin af mér og kastalanum er einmitt tekin af brúnni þar og þessi af bænum tekin við kastalann. 
Í Mariefred rölti ég um, fékk mér sushi (avocado nigiri er nýja uppáhaldið mitt í lífinu) og sat einmitt á næsta borði við frekar þekktan sjónvarpskokk hér í Svíþjóð, Leilu Lindholm. 


Síðasti áfangastaðurinn var svo kirkjan í Härkeberga og bóndabærinn sem djákninn þar bjó í, en þar sem að djákninn var frekar fátækur og kirkjan sá bara um að gera upp prestbústaðina þá hefur djáknabústaðurinn staðið nánast óbreyttur í nokkur hundruð ár ! 
Kirkjan var mjög falleg og þakin að innan að myndum, biblíutengdum og ekki biblíutengdum. 
Það sem ég kýs að kalla helvítisgöltinn var mín uppáhalds mynd <3 en annars þótti mér fíllinn þarna hægra meginn líka rosa sætur ;) 

Nú er ég búin að skrifa aðeins of langa ritgerð um daginn minn ! Ég eiginlega trúi því ekki að einhver hafi nennt að lesa þetta til enda, ekki viss um að ég hefði nennt því ;) 
En reyni að hafa næstu færslu í viðráðanlegri lengd.

Hej då !

fimmtudagur, 27. ágúst 2015

Stor latte och kanelbulle

Ákvað að henda inn einu bloggi - mest bara til þess að fólk viti að ég er á lífi. Ég er það. Rétt svo! 
Væri líklegast dáin úr leiðindum ef ég ætti ekki Guðný vinkonu að, hef fengið að eyða miklum tíma á sófanum hennar síðustu daga <3 svo gefur hún mér líka að borða og svona - bjargvættur.is ;)


Ég er byrjuð að lesa kennslubókina mína í ónæmisfræði - þori ekki öðru eftir þennan spurningarlista sem ég talaði um í síðasta bloggi ! Gat alveg ekki svarað neinu ... en við reddum því núna áður en önnin byrjar á mánudaginn.
Svo á ég líka fallegustu krummabollana í bænum! Eru ekki allir að sjá hann á myndinni? Voru kveðjugjöf frá mér til mín, keyptir þegar ég var á Akureyri í síðasta sinn fyrir flutninga.


Ég stunda kaffihúsin hér í Uppsala grimmt þessa dagana! Tel það heilaga skildu mína nú við flutninga til Svíþjóðar að fara all in í menninguna og fika á hverjum degi. Enn þá meiri skilda að fá sér kanelbulle með kaffinu - enda eru þeir top nice góðir sko ! 
Varð mjög stolt í dag þegar mér tókst að komast í gegnum heila afgreiðslu án hjálpar og án þess að nokkur væri á undan mér í röðinni á sænsku :) litlir sigrar sko ...

Annars hefur nákvæmlega ekkert skeð ! En á laugardaginn er ég að fara í skoðunarferð á vegum skólans sem ég er mjög spennt fyrir - hendi í, vonandi, mun meira spennandi blogg þá ! ;) 
Hej då 

þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Lífið á Döbelnsgatan 2B

Fyrstu dagarnir hér í Uppsala hafa flogið frá mér - en ég ákvað að setjast niður og prufa að blogga, þá væri líka auðveldara fyrir þá sem vilja fylgjast með að heiman að vita hvað ég er að gera af mér :)
... hvort það eru svo fleiri heldur en mamma og pabbi á eftir að koma í ljós ;) 


Ég er ennþá að læra inn á  búðirnar hér í Svíþjóð ! Þeir sem þekkja mig vel vita að ég get orðið ótrúlega áttavilt þegar ég versla annars staðar en í minni Krónu búð, svo það er búið að vera skrítið að reyna að læra ekki bara inn á nýjar búðir heldur líka alveg nýtt vöruúrval ... 
En ég dembdi mér bara beint í djúpu laugina svo hér er það müsli og filmjölk í morgunmat ! 
Tók reyndar næstum filmjölk í misgripum fyrir venjulega mjólk í fyrstu búðarferðinni - það hefði verið bömmer þar sem að filmjölkin svipar til súrmjólkurinnar heima ;)


Hingað til hafa dagarnir mínir í Svíþjóð einkennst af miklu rölti fram og til baka um central Uppsala. Ég hef nú þegar fundið nokkrar búðir sem verða mikið stundaðar í vetur og er ein af þeim ótrúlega hugguleg bókabúð á göngugötunni þar sem er meðal annars hægt að fá þessi ótrúlega flottu plaköt.
Á einhverjum tímapunkti í lífinu þarf ég að eignast Harry Potter posterinn þeirra - staðfest ! 


Ég fékk í dag 2 bls langan spurningarlista úr ónæmisfræði frá kennaranum mínum ásamt skilaboðum um að ef maður gæti ekki svarað öllum spurningunum á listanum ætti maður að nálgast kennslubókina sem fyrst og lesa hana áður en kennsla hefst .... 
Fór því og eyddi nánast öllum peningunum mínum í bókabúðinni í dag (kennslubækur eru ekkert ódýrari hér heldur en heima) ... restin fór svo í strætókort.
Fékk samt ekki að prufa nýja flotta UL kortið mitt á leiðinni heim frá Guðný í kvöld þar sem að kerfið þeirra lág niðri, en fékk í staðinn frítt í strætó - námsmaðurinn hatar það ekki ! ;)

En þetta er nú orðið alltof langt hjá mér ! Bless í bili ... :)