laugardagur, 29. ágúst 2015

Áfangastaður: Gripsholm Castle

Uppsala er mikill háskólabær og hér virðast allir allt vilja gera fyrir stúdentana í bænum.
Mikið í boði þessa vikuna að skoða og gera fyrir nýnema en ég verð að viðurkenna að ég var ekki nógu dugleg að nýta mér það ... þangað til í dag!
Alþjóðaskrifstofa Uppsala háskóla bauð upp á miða í hinar ýmsu skoðunarferðir og ég stökk á miða í eina sem tók mann með rútu í Gripsholm Castle, litla miðaldra bæinn Mariefred og að skoða kirkju frá fjórtöndu öld í Härkeberga. 
Veðrið var yndislegt, leiðsögumennirnir ótrúlega skemmtileg og full af fróðleik og viðkomustaðirnir áhugaverðir. Ég fyllti símann af misgóðum myndum og ætla að troða nokkrum vel völdum hér á bloggið - vara þó við að þær eru mis menningarlegar ! ;)


Frysta stopp var Gripsholm Castle, sem má sjá þarna á bak við mig ! :) 
Í kastalanum tók á móti okkur leiðsögumaður á þeirra vegum sem að labbaði með okkur í gegnum allan kastalann og í raun var þetta líka fyrirlestur í sögu sænska kóngafólksins því þarna er andlitsmyndasafnið þeirra geymt og hver hæð tileinkuð sínu árhundraði með málverkum af kóngafólkinu og öðrum mikilvægum persónum þess tíma.


Ég tók talsvert af myndum inni á safninu, en birtan var frekar slæm og bannað að taka myndir með flassi, svo þær eru margar ekkert mjög góðar. 
Fannst þessi mynd samt heppnast frekar vel ! En hún er af drottningunni Kristinu, sem var bara 6 ára þegar pabbi hennar dó og hún varð að drottningu ! Eins og það sé ekki nóg til að leggja á lítið barn, þá þótti ríkisstjórninni móðir hennar hafa slæm áhrif á prinsessuna svo að ekkja konungsins, Maria Eleonora var send í Gripsholm kastala og bannað að hitta dóttur sína drottninguna. 
Talandi um drama í kringum 1600 ;) 
En það að ég skuli geta þulið þetta og meira upp um bara þetta málverk og málverkin í kring segir kannski eitthvað um gæði túrsins. Þetta var klukkustundalöng sögustund í fallegum kastala :)


Rúnasteinn sem stendur framan við kastalann. Minningarorð um víkinginn Ingvar sem fór fyrir leiðangri austur á bóginn. Allir leiðangursmenn voru drepnir - en 26 minningarsteinar gerðir engu að síður um mikla afrikið sem þeir unnu með að komast þangað sem þeir komust ... 
Eða eins og leiðsögumaðurinn okkar orðaði það: Svona voru víkingarnir! Það að vera heima og lifa af var bara ekki töff, að allavega reyna að fara í víking og mistakast - það var heiður!


Kóngafólkinu hefur í gegnum tíðina verið gefnar ýmsar gjafir, þar á meðal dýr og í eitt skiptið ljón. Þegar ljónið svo dó var það stoppað upp, nema hvað að maðurinn sem sá um að stoppa upp ljónið hefur líklegast aldrei séð ljón nema á skjaldamerkjum. Svo ljónið hefur risastór gleraugu og enn stærri tungu og tennur úr við x) 


Eftir túrinn um Gripsholm voru 2 klst af frjálsum tíma í Mariefred, litlum bæ sem stendur hjá kastalanum við vatnið. Myndin af mér og kastalanum er einmitt tekin af brúnni þar og þessi af bænum tekin við kastalann. 
Í Mariefred rölti ég um, fékk mér sushi (avocado nigiri er nýja uppáhaldið mitt í lífinu) og sat einmitt á næsta borði við frekar þekktan sjónvarpskokk hér í Svíþjóð, Leilu Lindholm. 


Síðasti áfangastaðurinn var svo kirkjan í Härkeberga og bóndabærinn sem djákninn þar bjó í, en þar sem að djákninn var frekar fátækur og kirkjan sá bara um að gera upp prestbústaðina þá hefur djáknabústaðurinn staðið nánast óbreyttur í nokkur hundruð ár ! 
Kirkjan var mjög falleg og þakin að innan að myndum, biblíutengdum og ekki biblíutengdum. 
Það sem ég kýs að kalla helvítisgöltinn var mín uppáhalds mynd <3 en annars þótti mér fíllinn þarna hægra meginn líka rosa sætur ;) 

Nú er ég búin að skrifa aðeins of langa ritgerð um daginn minn ! Ég eiginlega trúi því ekki að einhver hafi nennt að lesa þetta til enda, ekki viss um að ég hefði nennt því ;) 
En reyni að hafa næstu færslu í viðráðanlegri lengd.

Hej då !

fimmtudagur, 27. ágúst 2015

Stor latte och kanelbulle

Ákvað að henda inn einu bloggi - mest bara til þess að fólk viti að ég er á lífi. Ég er það. Rétt svo! 
Væri líklegast dáin úr leiðindum ef ég ætti ekki Guðný vinkonu að, hef fengið að eyða miklum tíma á sófanum hennar síðustu daga <3 svo gefur hún mér líka að borða og svona - bjargvættur.is ;)


Ég er byrjuð að lesa kennslubókina mína í ónæmisfræði - þori ekki öðru eftir þennan spurningarlista sem ég talaði um í síðasta bloggi ! Gat alveg ekki svarað neinu ... en við reddum því núna áður en önnin byrjar á mánudaginn.
Svo á ég líka fallegustu krummabollana í bænum! Eru ekki allir að sjá hann á myndinni? Voru kveðjugjöf frá mér til mín, keyptir þegar ég var á Akureyri í síðasta sinn fyrir flutninga.


Ég stunda kaffihúsin hér í Uppsala grimmt þessa dagana! Tel það heilaga skildu mína nú við flutninga til Svíþjóðar að fara all in í menninguna og fika á hverjum degi. Enn þá meiri skilda að fá sér kanelbulle með kaffinu - enda eru þeir top nice góðir sko ! 
Varð mjög stolt í dag þegar mér tókst að komast í gegnum heila afgreiðslu án hjálpar og án þess að nokkur væri á undan mér í röðinni á sænsku :) litlir sigrar sko ...

Annars hefur nákvæmlega ekkert skeð ! En á laugardaginn er ég að fara í skoðunarferð á vegum skólans sem ég er mjög spennt fyrir - hendi í, vonandi, mun meira spennandi blogg þá ! ;) 
Hej då 

þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Lífið á Döbelnsgatan 2B

Fyrstu dagarnir hér í Uppsala hafa flogið frá mér - en ég ákvað að setjast niður og prufa að blogga, þá væri líka auðveldara fyrir þá sem vilja fylgjast með að heiman að vita hvað ég er að gera af mér :)
... hvort það eru svo fleiri heldur en mamma og pabbi á eftir að koma í ljós ;) 


Ég er ennþá að læra inn á  búðirnar hér í Svíþjóð ! Þeir sem þekkja mig vel vita að ég get orðið ótrúlega áttavilt þegar ég versla annars staðar en í minni Krónu búð, svo það er búið að vera skrítið að reyna að læra ekki bara inn á nýjar búðir heldur líka alveg nýtt vöruúrval ... 
En ég dembdi mér bara beint í djúpu laugina svo hér er það müsli og filmjölk í morgunmat ! 
Tók reyndar næstum filmjölk í misgripum fyrir venjulega mjólk í fyrstu búðarferðinni - það hefði verið bömmer þar sem að filmjölkin svipar til súrmjólkurinnar heima ;)


Hingað til hafa dagarnir mínir í Svíþjóð einkennst af miklu rölti fram og til baka um central Uppsala. Ég hef nú þegar fundið nokkrar búðir sem verða mikið stundaðar í vetur og er ein af þeim ótrúlega hugguleg bókabúð á göngugötunni þar sem er meðal annars hægt að fá þessi ótrúlega flottu plaköt.
Á einhverjum tímapunkti í lífinu þarf ég að eignast Harry Potter posterinn þeirra - staðfest ! 


Ég fékk í dag 2 bls langan spurningarlista úr ónæmisfræði frá kennaranum mínum ásamt skilaboðum um að ef maður gæti ekki svarað öllum spurningunum á listanum ætti maður að nálgast kennslubókina sem fyrst og lesa hana áður en kennsla hefst .... 
Fór því og eyddi nánast öllum peningunum mínum í bókabúðinni í dag (kennslubækur eru ekkert ódýrari hér heldur en heima) ... restin fór svo í strætókort.
Fékk samt ekki að prufa nýja flotta UL kortið mitt á leiðinni heim frá Guðný í kvöld þar sem að kerfið þeirra lág niðri, en fékk í staðinn frítt í strætó - námsmaðurinn hatar það ekki ! ;)

En þetta er nú orðið alltof langt hjá mér ! Bless í bili ... :)