föstudagur, 25. september 2015

Stúlkan á bláa hjólinu

Í gær skeði það í fyrsta sinn að mín mest notaða setning "Pråtar du engelska? Min svenska är inte så bra" brást mér þegar henni var svarað í fyrsta sinn ekki með "Yes I do" heldur "Nej, jag talar inte engelska, men du talar ju svenska".
Ég sver það að hjartað tók auka slag og í andartak fraus ég og var næstum búin að missa út úr mér á minni allra bestu íslensku "Hvernig á ég þá að versla við þig!?" og labba aftur heim og segja þessum leiðangri mínum lokið. Leiðangri sem fólst í því að draga alveg loftlausa hjólið mitt á eftir mér niður í miðbæ í leit að hjólabúð til að aðstoða mig við að koma því í stand fyrir Uppsala.
En það að gefast upp án þess að reyna er bara ekki í boði þegar maður er að reyna fóta sig ein í nýju landi ! Svo haldið þið ekki að yours truly hafi náð að gera sig skiljanlega um að hjólið mitt væri fyrir utan hjólabúðina, það væri loftlaust og ég þyrfti að láta pumpa í það auk þess sem að mig vantaði á það körfu, bjöllu, ljós og sterkari lás. Ég lýg því samt ekki að mitt fyrsta verk eftir að ég kom út úr hjólabúðinni var að senda mömmu skilaboð um að ég hefði skilið hjólið mitt eftir hjá eldri manni sem talaði ekki ensku og ég héldi að ég ætti að sækja það eftir 30 mínútur og ég héldi ég hefði beðið um fyrr greinda hluti. 


En 45 mínútum og 460 krónum síðar fékk ég þessa elsku í hendurnar <3 fallegi fákur sko ! 
Svo nú, eftir rúman mánuð af strætó og gönguferðum er ég loksins búin að koma elsku hjólinu á götuna. Ég hefði ekki trúað því hversu mikill munur það er að geta hjólað á milli staða, en allt hefur sína kosti og galla og ég hef nú sætt mig við það hlutskipti í lífinu að vera alltaf sveitt og ógeðsleg (ég bý efst í mögulega einu brekkunni hér í Uppsala). 
Hér hjóla allir, bókstaflega allir, ég yrði ekki hissa þótt að hér væru fleiri hjól á götunum heldur en bílar. Sem dregur mig að næsta atriði. Á götunni. Hér hjólar fólk á götunni. Hjálmlaus, öll sem eitt. 
Ef þið heyrið því á næstu vikum af ungri íslenskri stúlku sem óvart hjólaði á bíl, eða manneskju, eða inn í andahóp. Þá vitið þið um hverja ræðir.
En ég hjólaði í fyrsta sinn leið áðan þar sem ekki voru þar til gerðir hjólastígar og komst í þetta skiptið lifandi heim úr búðinni. Þrátt fyrir að hafa ekki bara hjólað á götunni, heldur gefið merki um í hvaða átt ég ætlaði að beygja á gatnamótum og farið 1/4 af hringtorgi á hjólinu ! 
Með innkaupin fyrir helgina í körfunni ásamt veskinu. Mjög stórborgaraleg. Eins og mér finnst ég vera í svo mörgu sem ég tek mér fyrir hendur hér í stóra Sverige :)

En þar til næst
Hejdå


þriðjudagur, 22. september 2015

Dagur í lífi regnhlífar

Lífið gengur sinn vanagang hér í Uppsala, kominn mánuður síðan ég flutti og ég er ekki frá því að lífið sé að verða komið í einhverskonar rútínu.

Í dag var rigning og notaði ég tækifærið til að prufukeyra nýju regnhlífina mína, ég veit ekki hvað það er en ég er komin með einhverja undarlega þráhyggju fyrir regnhlífum síðan ég áttaði mig á því (og bloggaði um) að það væru allir með þannig að hér væru þær algjörlega málið.


Svona var útsýnið undan reghnlífinni minni þegar ég gekk heim í kvöld ! Ég vildi að þið hefðuð getað séð hvað ég var fín og stórborgaraleg á leið heim úr búðinni með svarta regnhlíf og fjölnota innkaupa poka í stíl - en þar sem ég hafði engan til að taka mynd af mér þá verðið þið að láta ykkur þessa furðulegu mynd af malarstígnum hjá sjúkrahúsinu duga ;)


Litlu hlutirnir í lífinu sko ! Ég hef verið að eyða miklum tíma með Guðný og Axel síðan ég flutti út, veit bókstaflega ekki hvar ég væri án þeirra <3 og gærdagurinn var engin undantekning.
Kíkti í ræktina eftir skóla með Guðný og var svo eitthvað eirðarlaus í mér um kvöldið svo ég hoppaði upp í strætó og kíkti í kvöldheimsókn. 
Tókum yatzy - og haldið þið ekki að mín hafi rústað því og fengið sexu-yatzy í fyrsta skipti í skrilljón ár ! ... ætla að lifa á þessu kasti allavega út vikuna ;) 

Annars er bara brjálað að gera í skólanum og lífið snýst voðalega mikið um það að komast í gegnum skóladaginn og að sofa. Er búin að vera endalaust þreytt og búin að sofa mikið síðan ég flutti ! 

En þar til næst - hejdå

laugardagur, 19. september 2015

Frekar mikið um ekkert

Ákvað að henda inn stuttri færslu svona á laugardegi, láta vita að ég er á lífi hér í Svíþjóð.
Veit ekki alveg hvað ég á að skrifa um samt, síðasta vikan hefur liðið í smá móki:
Ég sef, vakna, mæti í skólann, kem mér í gegnum restina af deginum og endurtek. 


Hlusta mikið á þetta lag þessa dagana, það poppaði upp á "Veckans tips" á Spotify hjá mér í vikunni sem ég flutti hingað út, meira viðeigandi en flest önnur á þessum tímapunkti í lífinu.

Flaug heim um síðustu helgi í afmælisfögnuð hjá pabba og Sigga frænda. 
Lítið sofið en mikið ferðast þá helgina ! Er enn að hlaða batteríin, bæði líkamlega og andlega, tók mun meira á heldur en ég hafði búið mig undir svo það var mjög þreytt og buguð lítil sál sem fór að sofa um kvöldmatarleitið á mánudeginum hér í Uppsala.


Ætla einblína á allar góðu stundirnar frá helginni :) ég veit ekki alveg hvar Baldur faldi sig þegar við skelltum í eina grettu selfie systurnar með mömmu og pabba á laugardagskvöldinu, kannski að haga sér eins og maður fyrir restina af okkur ;) en mér þykir allavega mjög vænt um þessa mynd <3 það sem ég er heppin með fjölskyldu :D elska þessi svo endalaust mikið !


Eins og ég sagði í upphafi hef ég gert lítið annað heldur en að sofa, mæta í tíma og liggja á sófanum hjá Guðný að leika við Lóu vinkonu mín þess á milli ... ákvað samt þegar ég vaknaði í morgun að það gengi ekki til lengdar ! Svo að þegar Guðný sendi mér skilaboð um að það hefðu losnað pláss í morguntíma í spinning þá skelltum við okkur saman þangað og er ég nú komin í náttföt heima alveg búin á því eftir daginn að reyna að vinna upp heimalærdóm fyrir næstu viku :)

Þar til næst ... hejdå 

miðvikudagur, 9. september 2015

Hvað er að frétta? Pönnukökur og miði á Skálmöld :)

Lífið er smátt og smátt að komast í rútínu hér í Uppsala, veit samt í alvöru ekki hvar ég væri ef ég ætti ekki Guðný og Axel að ! Rútínan mín felur vandræðalega mikið í sér að eyða sem mestum tíma utan skóla með þeim og Lóu, litlu vinkonu minni :) en ég kvarta ekki !  Ég er bara rosa þakklát að eiga svona góða vini sem standa við bakið á mér og gera allt sem þau geta til að gera flutningana til Svíþjóðar ein þægilega og hnökralausa fyrir mig og mögulega.


Við tökum fika mjög alvarlega hér í Uppsala ! Það gladdi því hjartað mitt óendanlega þegar við fórum á kaffihús um síðustu helgi og við Guðný fundum okkur pönnukökur með sultu og rjóma ! <3
Næstum því eins og að vera komin heim bara :) 


Það gladdi hjartað mitt þó ennþá meira (ótrúlegt en satt!) þegar ég fann mér miða á Skálmöld í Stokkhólmi í byrjun desember ! :D Þangað til í síðustu viku hafði ég aldrei heyrt um hljómsveitina sem þeir eru að fara spila með, en ég hef hlustað mjög mikið á Eluveitie síðustu vikuna og er orðin gjörsamlega húkt ! 1. desember getur ekki komið nógu snemma !!! :D 


Annars er þessi mynd mjög lýsandi fyrir líf mitt þessa dagana ... læri læri læri ... ónæmisfræði BUGUN á háu stigi í gangi í augnablikinu - en vonandi kvikna nokkur ljós þegar ég næ að lesa lengra inn í bókina ;) annars veit ég ekki alveg hvað ég geri ! 
En þangað til næst ... 

Hejdå

miðvikudagur, 2. september 2015

Det regnar men det spelar ingen roll

Var búin að ákveða að fara ekki að sofa fyrr en ég væri búin að þurrka af íbúðinni ... svo ákvað auðvitað í framhaldi af því að fara ekki að þurrka af fyrr en ég væri búin að henda inn nokkrum línum hér ;) þarf sko að óhreinka tuskurnar fyrir 7:00 í fyrramálið því þá á ég þvottahúsið!


Skólinn er byrjaður ! Það fer alveg að koma að því að ég átti mig á því að ég sé í alvöruni orðin Masters nemi !!! Auðvitað var hent í lyftu selfie á leiðinni í skólann fyrsta daginn ;) 
Kaffibauna leggings og kaffi frá Kaffitár - það klikkar ekki þegar maður er stressaður ! <3 

Er svona smátt og smátt farin að kynnast krökkunum í bekknum mínum örlítið. Við erum frekar mörg, rúmlega 30, með ótrúlega mismunandi bakgrunna og frá mismunandi löndum.
Auðvitað flestir frá Svíþjóð en svo erum við frá Íslandi, Rússlandi, Þýskalandi, Spáni, Mexíkó, Kólumbíu, Slóvakíu, Frakklandi, Grikklandi, Egyptalandi og ég veit ég er að gleyma einhverjum ! Sem gerir þetta náttúrulega bara enn skemmtilegra og enn áhugaverðara nám - enda þekkja smitsjúkdómar engin landamæri ;)


 Ég fór á fætur snemma í morgun, skellti mér í Ketilbjöllu tíma klukkan 7:30 eftir andvöku nótt ...
... í grenjandi rigningu - geri aðrir betur!
Íhugaði að taka mont mynd, en ef það eru ekki lög sem banna að taka myndir af fólki eins og mér fyrir og eftir morguntíma í ræktinni, þá ættu þau allavega að vera til staðar - svo þið sleppið við það.

En rigningin ! Hér rignir fyrir allan peninginn, eins og hellt úr fötu - sænska haustið mætt á svæðið.
Þemað í Uppsala í dag var því regnhlífar - ég þarf að eignast þannig, það er alveg efst á innkaupalistanum í augnablikinu. 
Ekki það að mér hefur alltaf þótt regnhlíf svo skrítið hugtak, enda virka þær ekkert heima, en hér eru allir með þær - fólk hjólar alveg með þær. Svo ég var creepy Íslenska stelpan sem hljóp um með drukknandi iPhone og tók myndir af mismunandi fólki með regnhlífar ... 


En rigning og ketilbjöllur kallar bara á eitt ! Heitt súkkulaði eftir pappírs stúss í bænum <3 :) 

Hej då