Í gær skeði það í fyrsta sinn að mín mest notaða setning "Pråtar du engelska? Min svenska är inte så bra" brást mér þegar henni var svarað í fyrsta sinn ekki með "Yes I do" heldur "Nej, jag talar inte engelska, men du talar ju svenska".
Ég sver það að hjartað tók auka slag og í andartak fraus ég og var næstum búin að missa út úr mér á minni allra bestu íslensku "Hvernig á ég þá að versla við þig!?" og labba aftur heim og segja þessum leiðangri mínum lokið. Leiðangri sem fólst í því að draga alveg loftlausa hjólið mitt á eftir mér niður í miðbæ í leit að hjólabúð til að aðstoða mig við að koma því í stand fyrir Uppsala.
En það að gefast upp án þess að reyna er bara ekki í boði þegar maður er að reyna fóta sig ein í nýju landi ! Svo haldið þið ekki að yours truly hafi náð að gera sig skiljanlega um að hjólið mitt væri fyrir utan hjólabúðina, það væri loftlaust og ég þyrfti að láta pumpa í það auk þess sem að mig vantaði á það körfu, bjöllu, ljós og sterkari lás. Ég lýg því samt ekki að mitt fyrsta verk eftir að ég kom út úr hjólabúðinni var að senda mömmu skilaboð um að ég hefði skilið hjólið mitt eftir hjá eldri manni sem talaði ekki ensku og ég héldi að ég ætti að sækja það eftir 30 mínútur og ég héldi ég hefði beðið um fyrr greinda hluti.
En 45 mínútum og 460 krónum síðar fékk ég þessa elsku í hendurnar <3 fallegi fákur sko !
Svo nú, eftir rúman mánuð af strætó og gönguferðum er ég loksins búin að koma elsku hjólinu á götuna. Ég hefði ekki trúað því hversu mikill munur það er að geta hjólað á milli staða, en allt hefur sína kosti og galla og ég hef nú sætt mig við það hlutskipti í lífinu að vera alltaf sveitt og ógeðsleg (ég bý efst í mögulega einu brekkunni hér í Uppsala).
Hér hjóla allir, bókstaflega allir, ég yrði ekki hissa þótt að hér væru fleiri hjól á götunum heldur en bílar. Sem dregur mig að næsta atriði. Á götunni. Hér hjólar fólk á götunni. Hjálmlaus, öll sem eitt.
Ef þið heyrið því á næstu vikum af ungri íslenskri stúlku sem óvart hjólaði á bíl, eða manneskju, eða inn í andahóp. Þá vitið þið um hverja ræðir.
En ég hjólaði í fyrsta sinn leið áðan þar sem ekki voru þar til gerðir hjólastígar og komst í þetta skiptið lifandi heim úr búðinni. Þrátt fyrir að hafa ekki bara hjólað á götunni, heldur gefið merki um í hvaða átt ég ætlaði að beygja á gatnamótum og farið 1/4 af hringtorgi á hjólinu !
Með innkaupin fyrir helgina í körfunni ásamt veskinu. Mjög stórborgaraleg. Eins og mér finnst ég vera í svo mörgu sem ég tek mér fyrir hendur hér í stóra Sverige :)
En þar til næst
Hejdå