sunnudagur, 18. október 2015

Svefnleysi, brotinn sími og prófstress

Ég er alltaf að bíða eftir að eitthvað ótrúlega merkilegt eigi sér stað, helst myndvænt og líka töff - svo ég geti bloggað um það. En svo gengur lífið bara sinn vanagang og ég veit ekki hvert tíminn er að fljúga frá mér ! Fyrsta stóra lokaprófið mitt í mastersnáminu eftir 11 daga, mig langar pínu að deyja ég er svo stressuð. Allavega gubba. En er svona að reyna að anda rólega og einbeita mér að því að læra, býst ekki við að gera mikið annað heldur en að sofa og læra næstu 11 dagana.


Hér í Uppsala er komið haust, ég tók þessa mynd þegar ég hjólaði heim úr bænum eftir fiku með Guðný og Axel í gær. Þótt að hitastigið sé komið niður að frostmarki hér í Svíþjóð þá er ótrúlega stillt og fallegt veður sem hefur fylgt fyrsta vetrarkuldanum.
Ekki það að mér líður eins og það séu -10 þegar hitamælirinn hér sínir -1, svo ég veit ekki hvernig ég á eftir að lifa það af þegar frostið kemur í vetur.


Þótt að mér líði ótrúlega vel hérna í Svíþjóð þá er miserfitt að komast í gegnum daginn. Hef svolítið fundið fyrir því síðustu vikurnar sérstaklega hvað það er meira en að segja það að venjast því að vera ein og venjast því að vera í nýju landi. Veit í alvörunni ekki hvar ég væri stödd ef ég ætti ekki elsku Guðný og Axel að þessa dagana. En þegar manni finnst heimurinn ljótur og vill helst ekki vera til, þá sækir maður í það sem er öruggt og alltaf til staðar fyrir mann <3 Harry Potter. Fór og eyddi aleigunni í nýju myndskreyttu útgáfuna sem kom út í síðustu viku. Hún er yndisleg. 

Annars er mest lítið að frétta, það kom að því sem fólkið í kringum mig hefur beðið eftir þegar síminn minn datt einu sinni of oft í gólfið og brotnaði. Því fylgir ekki mynd þar sem ég á bara myndavélina í símanum. Hann virkar samt alveg - no worries, bara sprungur í skjánum. 
En klaufabárðurinn verður bara lifa með því og reyna fara betur með elsku besta símann því nú er ekkert víst hann þoli mikið fleiri högg ! 

Stefni á að henda inn eins og einu prófbugunar bloggi með myndum af glósum og prófljótu til að þið heima á klakanum vitið ég sé enn á lífi meðan klukkan tifar allt of hratt og prófdagur nálgast. En þar til næst ... hejdå 

2 ummæli:

  1. Issss - koddu bara í heimsókn í pestarbælið hérna Nína mín. Þú gætir fengið 5 daga magapest með öllu tilheyrandi að launum. Ókeypis gubb og allt!

    SvaraEyða
    Svör
    1. Ókeypis gubb er eiginlega of gott boð til að geta hafnað ! Veit samt ekki hvort ég hef efni á því viku fyrir próf :D haha ... en þarf klárlega kíkja í heimsókn í pestarbælið strax og prófi lýkur <3 ... þótt vonandi verði pestin þá stungin af ;)

      Eyða