fimmtudagur, 12. nóvember 2015

Är du dansk?

Kem til með að flytja minn fyrsta fyrirlestur á ensku fyrir framan bekkjarfélaga og kennara á morgun, gengur svona misvel að koma því niður á blað hvað ég ætla að segja og klára að undirbúa glærurnar mínar. Fengum sem betur fer daginn í dag í "frí" til þess að undirbúa kynningarnar okkar. Ég fullnýtti daginn að sjálfsögðu. Svaf út. Fór í bankann. Tók kaffihúsadeit við Guðný. Fannst ég ómögulega geta lært heima hjá mér og ákvað því að leikteppið hennar Lóu væri betri staður til að koma mér í gang. Lék við Lóu, lærði minna. Er nú heima og ákvað að það væri löngu orðið tímabært að henda í blogg.


En ég er allavega búin að koma mér fyrir og finnst ég hljóti að vera standa mig vel í lærdómnum fyrst íbúðin er í rúst - helst það ekki alltaf í hendur? Er líka orðið óglatt af lakkrís áti, getur bara þýtt ég sé að standa mig dúndur vel í lærdómnum.

Annars er allt ágætt að frétta frá Uppsala, tíminn hleypur frá mér og ég hef suma daga svo mikið að gera að ég eiginlega kem engu í verk ég er svo upptekin að reyna skipuleggja hvernig ég ætli að hafa tíma í allt sem ég þarf að gera. Ekki nema rúmur mánuður í lokapróf í lotunni sem nú var að hefjast, eftir það hef ég 2 daga til að pakka lífinu mínu hér í Svíþjóð niður í kassa og flytja. 
Er búin að kynnast yndislegum mæðginum hér í Uppsala, þeim Kötlu og Flóka, sem ég ætla að leigja hjá herbergi eftir áramót. Er ekki frá því það verði notalegt að fá smá félagsskap, ég kann ekki að búa svona ein, enda eyði ég líklega meiri tíma á sófanum hjá Guðný vinkonu en í mínum eigin sófa.


En ég er ekki alltaf ein! Sólskinsbarnið hún Helga María kom í pössun til mín í tvo daga í síðustu viku og eyddi ég svo síðdegi með þeim mæðgum þann þriðja. Ég bý nefnilega svo vel að eiga heima í sama húsi og hún er í leikskóla, ekki slæmt þegar pabbi er á Íslandi og kemst ekki að ná í mann! Henni fannst sko ekkert leiðinlegt að Nína "frænka" kæmi að ná í sig í leikskólann í staðinn og áttum við ótrúlega góðar stundir saman yfir Pokémon og ostabrauði <3 

Annars komst ég að því á barnum í gærkvöldi (því bekkurinn minn ákvað að halda upp á próflokin okkar 10 dögum seinna á miðvikudegi eins og eðlilegt fólk gerir) að spurning "Är du dansk?" fer rosalega öftugt ofan í mig. Svelgdist alveg á bjórnum mínum og var ekki lengi að svara "Nej! Jag är isländsk!" ... af hverju ég var að segja Gleðileg jól er allt önnur saga, en að viðurkenna að gleðileg jól sé alveg eins á íslensku og dönsku var ég ekki til í ! 

Þar til í næsta stríði ... Hejdå ! 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli